Dúett auðveldar tveimur einstaklingum, oftast kærustupörum, að hafa yfirsýn yfir sameiginlegu fjármálin sín. Þessi vara er liður í vegferð indó að bjóða alhliða bankaþjónustu fyrir venjulegt fólk sem er gagnsæ, sanngjörn, skemmtileg og laus við allt bull.
Herferð fyrir nýja vöru Indó, Dúett
Samfélagsmiðlaefni, samstörf, viðburður, auglýsingar og fl.
Indó er nýtt fyrirtæki á markaði sem hefur á stuttum tíma haft mikil áhrif, og laðað að tryggan hóp viðskiptavina. Þau hafa frá upphafi ögrað staðalímyndum og talað við fólk á mannamáli. Þau eru óhrædd við að hafa gaman og tengjast fólki í gegnum húmor.
Viðskiptavinir indó er mjög fjölbreyttur hópur sem endurspeglar þjóðina þegar kemur að aldri, tekjum, menntun og kyni. Með herferðinni vildum við styrkja tengslin við allt þetta fólk, en varan er sniðin að daglegu lífi ungs fólks sem er að sameina fjármál, stofna fjölskyldu og koma sér fyrir, og svo ráðsettari pörum sem vilja sameina fjárhaginn enn frekar.
Markmið herferðarinnar var að koma nafni vörunnar á kortið, kynna hana fyrir markhópunum og vekja athygli annarra áhugasamra. Á sama tíma vildum við víkka út sterkt vörumerki indó og bæta við enn fleiri tólum til aðgreiningar á markaði.
„Við vildum stimpla nafnið vel inn hjá fólki, og gera það á óvæntan hátt.“
Nafnið á vörunni – Dúett – setti tóninn frá upphafi.
Við vildum stimpla nafnið vel inn hjá fólki, og gera það á óvæntan hátt sem bæði talar inn í raunveruleika markhópsins og endurspeglar vörumerkið sem indó hefur byggt.
Karaoke-æði hefur gripið um sig meðal markhópsins, og var því ekki verið að sækja vatnið yfir lækinn þegar ráðist var í hugmyndavinnuna. Dúett yrði kynntur til leiks með karaoke söng, þar sem fjögur ólík pör tækju lagið. Indó jingle-ið hefur frá upphafi verið afgerandi tól í búri vörumerkisins, og var því notast við þá laglínu í karaoke söngnum.
Rómantískur, sameiginlegur fjárhagur er eins og karaoke; skemmtilegastur þegar pör finna taktinn þar sem báðir aðilar hafa sitt fram að færa.
Hetjur herferðarinnar eru pörin fjögur: krúttkynslóðarfólkið, rokkararnir, álfaparið og djammararnir. Hvert par hefur sína orku, og endurspeglar fjölbreyttan hóp viðskiptavina Indó.
Indóstefið varð að sjálfsögðu fyrir valinu sem karaokelagið hjá þeim öllum. Saminn var grípandi texti við melódíuna: „dú-dú-dúett“, og lagið útfært á fjóra vegu sem hver passaði við sitt par.
Myndrænt er vísað í karaoke-minni með skoppandi bolta yfir textanum, og túbusjónvarpsáferð í flútti með ýktri stílíseringu passar við vörumerki indó.
Yfirskriftin setur síðan karaoke-punktinn yfir i-ið, með kaldhæðnum, smá steiktum en alltaf glaðlegum tóni: „paraupplifun í fjármálum“.