Aton er fjölbreyttur vinnustaður sem þjónustar marga ólíka viðskiptavini. Þess vegna er ný ásýnd okkar sveigjanleg. Í grunninn er hún nokkuð fastheldin en í sinni ýktustu mynd er hún uppfull af tjáningu og táknar þannig samskipta- og aðlögunarhæfni okkar.
Sterkara vörumerki með skýrari tjáningu
Við leggjum mikið upp úr því að skilgreina kjarna viðskiptavina okkar og tjá það sem í honum býr á skilvirkan og skapandi hátt. Ný ásýnd okkar byggir á sérhannaðri leturgerð, Nota, sem var hönnuð af Hólmfríði Benediktsdóttur.
Helsta einkenni letursins eru breytilegu innformin sem tákna bæði þær fjölbreyttu raddir sem starfa á Aton og svo hæfni okkar að tala til ólíkra hópa. Letrið blómstrar í nýju sveigjanlegu leturmerki okkar en er líka notað í fyrirsögnum þegar skilaboðin kalla á smá neista.
Við notum okkar eigið leturmerki sem vettvang fyrir tjáningu, þar sem þrívítt myndefni er sett í innform, eða kjarna, stafanna. Þessar myndir geta verið árstíðabundnar, tengst vörumerkjunum sem við vinnum með eða heitum straumum í samfélaginu, en geta líka verið hvað sem okkur dettur í hug.
Vörumerkið okkar á að vera opinn vettvangur fyrir tjáningu og þannig hvatning fyrir starfsfólkið okkar og samverkafólk að vera stoltir fulltrúar Aton. Við erum rétt að byrja og hlökkum til að finna nýjar leiðir til að tjá og skemmta okkur.