Við leiddum stefnumótunarvinnu fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Afurðin var sóknaráætlun fyrir landshlutann sem verður leiðarljós í uppbyggingu hans næstu fimm árin.
Vel sóttum íbúafundum á þremur stöðum í landshlutanum
Víðtæku samráði við fjölbreytta hagaðila úr ýmsum geirum
Sóknaráætlun Norðurlands vestra 2025-2029
Sóknaráætlanir landshluta eru fimm ára áætlanir sem fela í sér stöðumat, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt aðgerðum til að ná þeim. Sóknaráætlanir eru unnar í samstarfi við landshlutasamtök og í samráði við fjölmarga aðila, s.s. sveitarfélög, atvinnulíf, menningarlíf og íbúa.
Á Norðurlandi vestra eru helstu landbúnaðarhéröð landsins og öflugur sjávarútvegur en svæðið hefur vaxið hægt bæði hvað varðar íbúaþróun og efnahag. Í vinnunni var því lögð áhersla á að koma auga á þau fjölmörgu tækifæri sem gætu stuðlað að fjölbreyttu mannlífi og velsæld í landshlutanum.
Áhersla var lögð á að tryggja að fjölbreyttar raddir myndu koma að því að móta sóknaráætunina. Samráð var því stór hluti af verkefninu. Hönnun var samþætt við stefnumótunarferlið til að einfalda og skýra vinnuna og hvetja til þátttöku íbúa. Gögn um stöðu landshlutans voru rýnd og úttekt gerð á markmiðum og árangri fyrri sóknaráætlunar. Netkönnun var send til kjörinna fulltrúa og viðtöl tekin við ólíka aðila úr samfélaginu, svo sem úr atvinnulífi, stofnunum, mennta- og menningarmálum. Við skipulögðum og leiddum þrjár opnar vinnustofur á þremur stöðum í landshlutanum til að tryggja aðkomu íbúa að stefnumótunarferlinu. Á vinnustofunum lögðum við fyrir verkefni sem hjálpuðu þátttakendum að koma sínum sjónarmiðum varðandi uppbyggingu landshlutans á framfæri. Sú vinna reyndist vera mjög mikilvægt innlegg í sóknaráætlunina.
„Með góðri stefnumótun eins og sóknaráætlun getur samfélagið tryggt sér traustan grundvöll til að vaxa og takast á við áskoranir framtíðarinnar.“ — Katrín M. Guðjónsdóttir , framkvæmdastjóri SSNV
Í stefnumótunarferlinu kom glöggt fram að samvinna, jákvæðni og bjartstýni voru álitin ákveðinn lykill að framförum og uppbyggingu á Norðurlandi vestra. Það varð því einn af málaflokkum sóknaráætlunarinnar ásamt þremur til viðbótar. Þeir eru: Góður staður til að búa á; aukin nýsköpun og fjölbreytt atvinnulíf; og sjálfbær landshluti. Undir hverjum lykilmálaflokki voru skilgreindar áherslur og mótuð markmið. Þá voru sett fram dæmi um aðgerðir og skilgreindir mælikvarðar. Að lokum voru áherslur sóknaráætlunarinnar dregnar saman í framtíðarsýn landshlutans.
Íbúafundir voru vel sóttir og samráð af ýmsu tagi tryggði víðtækt eignarhald á þeirri stefnu sem sett var fram í sóknaráætluninni. Hönnun og útlit kynningarefnis vakti athygli og gerði efni vinnunnar aðgengilegra.
Eftir stendur sóknaráætlun til næstu fimm ára með vel skilgreindum áherslum og skýrri framtíðarsýn sem mun nýtast til uppbyggingar í landshlutanum.