Á Íslandi eru færri ungmenni með háskólapróf en í viðmiðunarlöndum og á það sérstaklega við um unga karla. Á sama tíma hefur þörfin fyrir háskólamenntaða sérfræðinga aldrei verið meiri. Mun færri karlar en konur skrá sig í háskólanám á Íslandi og hefur bilið verið að breikka á undanförnum áratugum. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið leitaði til okkar og saman unnum við að herðferð til að auka aðsókn í háskólanám.
13% aukningu í skráningu karla á milli ára í Háskóla Íslands
Aldrei fleiri sótt um nám í Háskólanum í Reykjavík
Margir félagslegir og efnahagslegir þættir hafa áhrif á það hvort fólk skrái sig í háskólanám, en það sem hefur mest að segja er fyrri námsárangur. Strákar eru heilt yfir með lægri einkunnir en stelpur og þess vegna líklegri til að hætta í námi. Það er ljóst að verkefnið, sem við segjum frá hér, er hluti af stærra viðfangsefni.
Markmiðið var að fjölga skráningum ungs fólks í háskólanám í vor, með sérstakri áherslu á skráningu ungra karla. Til að ná því þurftum við að skilja hvað stendur í vegi fyrir því að karlar taki þessa ákvörðun — annað en námsárangurinn.
Við ræddum við sérfræðinga í málaflokknum, skoðuðum nýleg gögn og funduðum með fulltrúum allra háskólanna, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins til að fá þeirra innsýn. Í samstarfi við Rannsóknir og greiningu sendum við út könnun til útskriftarnema í 11 framhaldsskólum um allt land og spurðum þau um afstöðu þeirra til háskólanáms. Það helsta sem við lásum út úr könnuninni var að ungar konur eru ákveðnari í að fara í háskólanám en ungir karlar, sem láta peningamál og tekjutap stoppa sig.
„Háskólanám skilgreinir mig og allt mitt líf. Ef ég vel eina leið get ég ekki valið aðra.“
Til að skilja hvað er á bak við þessa afstöðu ræddum við beint við unga karla sem ýmist ætluðu í pásu eftir stúdentspróf, höfðu hætt í háskóla eða aldrei skráð sig. Niðurstöðurnar sögðu margar ólíkar sögur, en heilt yfir stóð viðhorfið hér til hliðar upp úr. Við vissum að við yrðum ekki þau fyrstu til að hvetja þessa stráka til að fara í háskólanám og nálguðumst þess vegna samskiptin á jafningjagrundvelli.
Til þess fengum við fólk sem markhópurinn getur speglað sig í – fólk sem gæti allt eins verið þau – til að segja sína sögu af háskólanámi. Sögur af því að stofna fjölskyldu í námi, vinna samhliða náminu, skipta oft um námsleiðir, vita ekkert hvað það vildi, finna ástríðuna í námi og fleira. Nákvæmlega hvaða nám þau stunduðu kom lítið sem ekkert fram, háskólanámið er ein af mörgum hliðum lífs þeirra. Verkefnið var að ná til þeirra sem vita ekki hvað þau vilja verða þegar þau verða stór og segja þeim að þau þurfi ekki að vita það.
— Segja þeim að heimurinn stækki í háskóla
Umfjöllunarefni myndbandanna eru tilfinningalegar þarfir sem komu fram í viðtölum okkur við unga karla í upphafi verkefnisins: Tilhlökkun, þörf fyrir andrými, tengsl, sjálfsöryggi og að finna fyrir tilgangi. Þau sem komu fram í myndböndunum töluðu um líf sitt og hvaða áhrif háskólanámið þeirra hefði haft á það — hvernig námið hefði uppfyllt þessar þarfir.
Fólk sem nær til þessa hóps talar oft í einhvers konar „valdeflandi boðhætti“ og við mótuðum okkar skilaboð, meðal annars, í því ljósi. Auglýsingaefni og skilaboð voru einföld og beinskeytt, enginn óþarfi. Gulur kallar á athygli og broddstafir í fyrirsögnum trufla aðeins og auka eftirtekt. Efnið birtist á þeim miðlum sem hópurinn notar.
Þetta var skammtímaverkefni og hluti af stærra viðfangsefni, eins og áður kom fram, sem hafði skýrt markmið um að fjölga skráningum karla strax í vor.
Skráningartölur HÍ voru birtar fyrir stuttu: 13% aukning varð í skráningu karla á milli ára.
Við erum stolt af því að hafa tekið þátt í þessu verkefni og þökkum þeim sem tóku þátt í því með okkur fyrir samstarfið.