Þegar fyrirtæki móta stefnu sína og áherslur til framtíðar er mikilvægt að skilja samfélagið sem þau starfa í og leita sjónarmiða hagaðila sinna. Orkuveitan fór í endurskoðun á heildarstefnu sinni haustið 2023 og tókum við að okkur hluta greiningarvinnunnar. Við tókum djúpviðtöl við ytri hagaðila með það að markmiði að draga fram ólík sjónarmið um þær samfélagslegu áskoranir sem fyrirtækið þarf að takast á við í stefnu sinni.
Ítarlegri kortlagningu á sjónarmiðum ytri hagaðila
Ljósi varpað á togstreitu og áskoranir framtíðarinnar
Mikilvægum upplýsingum sem nýtast í stefnumótun
Fyrirtæki í almannaeigu standa frammi fyrir áskorunum sem einkafyrirtæki gera ekki. Þessar áskoranir snúa m.a. að hlutverki viðkomandi fyrirtækis, framtíðarsýn og eignarhaldi. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir slíkt fyrirtæki að hafa innsýn í og skilning á sjónarmiðum þeirra ólíku hagaðila sem ýmist hafa mikla hagsmuni af starfsemi fyrirtækisins eða verða fyrir áhrifum af henni með einhverjum hætti.
Stjórnendur Orkuveitunnar vildu skerpa á þessari sýn fyrir heildarstefnumótun fyrirtækisins sem var ráðist í haustið 2023. Sérfræðingar Aton.JL búa yfir ýmsum leiðum til að mæla og greina viðhorf hagaðila og hvernig má byggja upp góð tengsl við þá, bæði í gegnum stefnumótun og strategísk samskipti. Þar má nefna fjölmiðla- og orðræðugreiningar, styttri spurningalista til lykilhagaðila og djúpviðtöl.
Markmiðið er ávallt að skilja betur þá sem hafa áhrif á eða verða fyrir áhrifum af starfsemi fyrirtækisins, svo hægt sé að mæta þeim með skynsamlegum og uppbyggilegum hætti.
Við greiningu djúpviðtala er skoðað hvaða þemu koma endurtekið fram og dregin upp mynd af því sem er sameiginlegt og ólíkt í reynslu og sjónarmiðum mismunandi hópa
Ákveðið var að notast við djúpviðtöl í þessari greiningarvinnu en tilgangur slíkra viðtala er að byggja upp sem dýpstan skilning á þátttakendum, skoðunum þeirra og upplifunum. Þannig gefast tækifæri til að skoða þemu og hugmyndir sem ekki er jafn auðvelt að draga fram, til dæmis með spurningalistum til breiðari hóps fólks.
Við greiningu djúpviðtala er skoðað hvaða þemu koma endurtekið fram og dregin upp mynd af því sem er sameiginlegt og ólíkt í reynslu og sjónarmiðum mismunandi hópa og einstaklinga. Þannig er hægt að draga sérstaklega fram hvar togstreita er í viðhorfum ólíkra hópa til ýmissa þátta í starfsemi fyrirtækisins.
Slíkar upplýsingar nýtast sérlega vel í stefnumótun en fyrirtæki í opinberri eigu þarf að huga vel að því hvar átakapunktar finnast sem tengjast starfseminni og vera skýrt í sinni afstöðu til þeirra. Að hafa greiningu sem þessa er undirstaða gagnlegra og skynsamlegra samskipta fyrirtækisins, bæði inn á við og út á við.
Tekin voru tíu viðtöl við 13 viðmælendur sumarið 2023. Viðmælendur voru ýmist viðskiptavinir Orkuveitunnar – stórir, meðalstórir og litlir – samstarfsaðilar í orkugeiranum og fulltrúar hagsmunasamtaka sem snúa að náttúruvernd eða atvinnulífi.
Viðtölin voru á bilinu 30-60 mínútur hvert og í kjölfar þeirra var afraksturinn þemagreindur. Niðurstöðurnar voru að miklu leyti settar fram sem beinar tilvitnanir í viðmælendur þar sem dregin voru út þau meginþemu sem fram komu. Þannig fá stjórnendur fyrirtækisins einstaka innsýn inn í viðhorf og sjónarmið lykilhagaðila sinna.
Í ljós komu ýmsar áskoranir fyrir Orkuveituna í samskiptum og stefnumótun. Það er togstreita um ýmis málefni sem fyrirtækið vinnur að og má þar nefna t.d. hvort virkja eigi meira, til hverra á að selja orkuna, hvert hlutverk fyrirtækisins er í nýsköpun og hvort framtíðarsýnin eigi að byggja á vexti eða eingöngu viðhaldi á núverandi grunnþjónustu.
Viðmælendur höfðu miklar væntingar til Orkuveitunnar sem eins af stærri fyrirtækjum landsins, sem auk þess býr að mjög vel menntuðum og öflugum mannauði. Fagmennska, þekking og reynsla einkennir fyrirtækið og gefur því umboð til að vera með sterka rödd þegar kemur að mikilvægum samfélagslegum úrlausnarefnum.
Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir stjórn fyrirtækisins sem nýtir þær núna ásamt fleiri gögnum til heildarstefnumótunar fyrirtækisins.