Hero image

Samfélagsskýrsla Krónunnar

Verkefnið:

Krónan gaf út samfélagsskýrslu fyrir árið 2019 og var fyrst íslenskra matvöruverslana til að gera slíka skýrslu. Samfélagsskýrslur eru nauðsynlegt tæki í samfélagi sem gerir sífellt meiri kröfur til fyrirtækja um aukna og sýnilegri samfélagsábyrgð. Að mörgu er að huga við slíka skýrslugerð, en grunninn verður að leggja með markvissri og skipulagðri nálgun í öllum rekstri fyrirtækisins.

Verkefnið skilaði:

Samfélagsskýrsla ársins 2019

Skapaði viðmið í gerð samfélagsskýrslna

Styrkti rammann utanum samfélagsstarf Krónunnar

Okkar aðkoma:
TextaskrifListræn stjórnunLjósmyndunHönnunRáðgjöf
Greiningin

Á árunum fyrir 2020 hafði Krónan markað sér sérstöðu á matvörumarkaði með því að leggja áherslu á umhverfismál, sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Mikil vinna var farin að skila árangri á fjölmörgum sviðum, en þessi árangur var ósýnilegur almenningi. Það skorti vettvang til að sýna heildarmyndina og miðla öllu því góða starfi sem hafði átt sér stað. Ekki aðeins til að miðla árangri og framtíðarstefnu Krónunnar til hagaðila og viðskiptavina, heldur líka – og ekki síður – til að veita starfsfólki innblástur og hvetja það áfram.

Skýrslan var einnig tækifæri til að setja starf Krónunnar í samfélagsmálum í samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og staðla í upplýsingagjöf um sjálfbærni.

Til að þessi markmið náist er lykilatriði að skýrslur sem þessar séu faglega unnar og byggi á réttum gögnum og upplýsingum sem eru vottuð af þriðja aðila. Krónan var þá í samstarfi við Klappir og fékk þaðan gögn sem sneru að umhverfisþáttum fyrirtækisins.

 

 

 

Teymið
Guðbjörg Tómasdóttir

Guðbjörg

Umsjónarhönnuður og teymisstjóri

Kristín Ýr

Kristín

Ráðgjafi

Strategían

Skýrslan átti ekki að vera þung lesning heldur myndræn og aðlaðandi framsetning á árangri og markmiðum Krónunnar í samfélagsmálum. Það átti að vera auðvelt fyrir alla að fletta í gegnum hana og meðtaka skilaboðin.

Unnið var eftir skilgreindum stöðlum við samsetningu skýrslunnar, sem setja efnistökum hennar fastar skorður. Ákveðnar upplýsingar þurfa að koma fram og framsetning þeirra verður að uppfylla skilyrði staðlanna.

Það var því ákveðin áskorun að fylgja þessum stöðlum að öllu leyti, en halda um leið hinum létta og alþýðlega tón Krónunnar í gegnum alla skýrsluna.

Með því að hafa hönnuði með í ferlinu frá upphafi og vinna efnið í nánu samstarfi við þá, tókst okkur að brúa þetta bil milli formfestunnar og léttleika og viðhalda anda Krónunnar í annars mjög efnislega þungri skýrslu.

Hjá Krónunni var enginn einn starfsmaður sem bar ábyrgð á verkefnum tengdum sjálfbærni heldur var aðkoma alls starfsfólks lykillinn að árangri. Við vildum miðla því í skýrslunni með því að gera starfsfólk og þeirra reynslu af verkefnunum mjög sýnilega.

Framkvæmdin

Ákveðið var að tvinna saman upplýsingagjöf í textaformi og myndræna framsetningu og var okkar verkefni að tryggja að sérstaða Krónunnar, tónn og talandi rataði inn í skýrsluna, bæði í orði og myndmáli.

Skýrslan kallaði á samstarf og samtal fjölmargra ólíkra aðila. Sérfræðingur frá Podium tryggði að öllum stöðlum væri fylgt við skýrslugerðina, en framsetningin á efninu var í höndum okkar. Einnig var farið í ljósmyndatöku í búðunum með starfsfólki til að myndskreyta þær sögur sem við vorum að segja.

Það var forgangsatriði frá upphafi, til að tryggja gagnsæi, að segja ekki einungis frá þeim markmiðum sem náðst höfðu heldur jafnframt segja frá því sem betur hefði mátt fara og nýta það til frekari markmiðasetningar. 

Skýrslan var sett þannig upp að auðvelt var að lesa á skjá og vef og var hún birt á vefsíðu Krónunnar. Hún var kynnt sérstaklega fyrir starfsfólki Krónunnar auk þess sem efni úr henni var miðlað með fjölbreyttum hætti.

Full width image
Áhrifin

Skýrslan hlaut góðan hljómgrunn og viðurkenninguna „Samfélagsskýrsla ársins 2019“ hjá Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráði Íslands. Þá hafði hún jafnframt mótandi áhrif á fagið því önnur fyrirtæki fylgdu í kjölfarið fordæmi Krónunnar og í dag gefa allar matvöruverslanir út samfélagsskýrslu sína.

Við erum stolt af því að hafa tekið þátt í þessu verkefni. Þetta var fyrsta samfélagsskýrslan sem við höfðum aðkomu að og við búum enn að þeirri reynslu og höfum nýtt hana í önnur sjálfbærniverkefni, sem og skrif á fleiri samfélagsskýrslum.